Elísa Björk býr í Hveragerði og ætlar því að halda námskeið á svæðinu,. Námskeiðin verða með áherslu jákvæða styrkingu og að ná góðum árangri með hundinum.

Námskeið á döfinni í Hveragerði.

Grunn námskeiðið inniheldur 12 verklega tíma (6 tímar er staðnám í reiðhúsi Eldhesta við Hveragerði, fimmtudaga/6 tímar fjarnám, þriðjudaga) og 5 bóklegir fyrirlestrar sem þið horfið á á netinu þegar hentar ykkur. 

Námskeiðið veitir afslátt af hundaleyfisgjöldum þar sem bæjarfélög bjóða upp á slíkt. Hægt er að nota styrk hjá sumum stéttarfélögum eins og VR og Eflingu.

Á námskeiðinu lærir þú meðal annars

 • að lesa merkjamál hunda, hvernig þeir tjá sig við okkur og við aðra hunda. Hvað er eðlilegur leikur og hvað er það ekki.
 • að þekkja stresseinkenni, hvað stressar og hvernig þú getur komið í veg fyrir stress.
 • inn á hvernig hundar læra, hvernig þeir lesa okkur, sem sagt atferli hunda.
 • að vinna með hundinum þínum svo honum finnist skemmtilegast í heimi að vinna með þér.
 • hvernig þú styrkir jákvæða hegðun og hvernig þú kemur í veg fyrir óæskilega hegðun.
 • að nota klikker (innifalinn) sem þjálfunartæki og lærir að nota lokka, móta og grípa aðferðirnar.

Þú gætir hreinlega kynnst hundinum þínum upp á nýtt

Á námskeiðinu kennir þú hundinum þínum

 • að hlusta á fólkið sitt, bæði þig og aðra í fjölskyldunni sem vilja vera með og þjálfa hundinn.
 • að gera þessar grunnæfingar sem eru nauðsynlegar til að hversdagslífið verði þægilegt.
 • að slappa af í áreiti! Það er svo mikilvægt að hundurinn geti slappað af þó það sé gaman og þó það séu aðrir hundar nálægt honum.
 • að vera í áreiti og geta samt sem áður hlustað og gert æfingar.
 • að læra að læra, hundar sem hafa aldrei lært neitt þurfa sérstaklega að æfa heilann sinn í að læra, það er hægt að kenna gömlum hundi að sitja svo að segja.
 • að láta hluti vera eða bíða eftir lausnarorði. Sumt er alltaf bannað, það lærir hundurinn án þess að við þurfum stöðugt að segja bannorðið. Aðrir hlutir sem er meira óljóst hvort má eða ekki, þar lærir hann á bannorð.
 • að flaðra ekki upp á fólk.
 • að sýna kurteisishegðun við ýmislegt. Sem dæmi að í stað þess að væla/gelta/krafsa/glefsa eða haga sér á annan átt illa þegar hann „vill eitthvað“ þá lærir hann að vera rólegur og biðja fallega um „leyfi til að fá“.
 • að nota dót sem verðlaun og þá að geta gefið þér dótið þegar þú biður um það.
 • að labba fallega í taumgöngu.
 • að sjálfur koma inn við hæl og labba þar.
 • Sitja / liggja / kyrr / innkall er að sjálfsögðu með.

Hér setjum við saman tvö vinsæl námskeið hjá okkur. 

Innkallsnámskeiðið og taumgöngunámskeiðið. 

Neyðarinnkallið
Að kalla hundinn til þín er það eitt af því mikilvægasta sem þú kennir honum, ekki bara til þess að hundurinn verði ekki til vandræða, heldur einnig til að koma í veg fyrir að eitthvað komi fyrir.

Að fá  hundinn til að hlusta á þig úti, þegar allt annað er svo spennandi er þjálfun, þjálfun og aðeins meiri þjálfun.

Þetta námskeið er bæði bóklegt og verklegt, en aðallega er þetta námskeið með heimavinnu, að æfa innkallsæfingar og fá hundinn til að “snúa við í loftinu” þegar þú kallar.

Hvað finnst hundinum þínum mest spennandi að elta, eða hlaupa að? Fólk, hundar, fuglar, hestar, kindur, kanínur, kisur, hlauparar, hjól eða hreinlega bara fjúkandi laufblöð?

Við erum ekki að fara drepa niður veiði-eðlið í hundinum heldur munum við vinna með það til fá hundinn til að vilja miklu frekar hlaupa til þín þegar þú kallar.

Betri göngutúr og taumganga
Að njóta þess að vera úti saman í göngutúr skiptir öllu máli. Ef hundurinn á það til að vera æstur, of glaður, smá stressaður, eða hreinlega á bara eftir að læra að toga ekki í tauminn er þetta námskeið fyrir þig.

Stundum er það að labba, aðeins of spennandi svo hundurinn missir sig og togar nánast af þér hendina. Við vinnum með væntingastjórnun og slökun á þessu námskeiði ásamt taumgöngu. Að geta slappað af úti skiptir öllu máli til þess að fá góða taumgöngu.

Á námskeiðinu förum við vel í taumgönguna með því markmiði að hundurinn geti labbað með slakan taum, þefað í rólegheitum, að hann geti slappað af úti og nái að veita þér athygli þegar þess þarf.

Ath. að þetta er ekki hælgöngunámskeið, þótt við munum fara í gegnum æfingar sem fá hundinn til að labba við hliðina á þér.

Umhverfis og áreitisþjálfun.
Á sama tíma og við erum að vinna með æfingar fáið þið frábæra umhverfisþjálfun. Venja hundana við að hlusta þegar eru hundar og annað áreiti í kringum ykkur.  Þannig virkar þetta sem frábært framhaldsnámskeið frá grunnhlýðni.

Skráning og greiðsla