Að taka að sér hund er stór ábyrgð og 10-15 ára skuldbinding. Það er mikið sem þarf að hugsa fyrir og jafnvel fórna fyrir hundahaldið.

Fyrst ber að hafa í huga að hundur getur ekki verið of mikið einn, sérstaklega ekki hvolpur, en samkvæmt sænskum dýraverndunarlögum mega fullorðnir hundar ekki vera lengur einir en 6 tíma á sólahring. Flestir hunda hér á landi þurfa að ráða við að geta verið einir heima venjulegann vinnudag, eða 8 tíma.  Það gengur í flestum tilfellum upp ef hundurinn hefur fengið þjálfun í að vera einn heima og er vel sinnt þess utan.

Þeir eigendur sem þurfa að skilja hundinn sinn eftir einann heima heilan vinnudag geta því ekki skroppið út aftur seinna um kvöldið nema þeir geti tekið hundinn með eða fengið einhvern til þess að gæta hans á meðan.

Við verðum einnig að hafa í huga að hundinum þarf að sinna á hverjum degi, líka þegar við erum sjálf veik, illa stemd eða þreytt. Það fyrsta sem þú þarft að gera þegar þú vaknar á morgnanna og það síðasta sem þú gerir fyrir háttin er að fara með hundinn út að gera þarfir sínar. Hundur þarf ekki bara daglega göngutúra, hann þarf líka daglega andlega örfun, þjálfun og umhirðu.

Það er margt sem getur breyst á 10 árum og margar spurningar sem við þurfum að spyrja sjálfan okkur að áður en hundur kemur á heimilið: Munt þú alltaf búa í húsnæði þar sem þú getur haft hund? Hver á að passa hundinn þegar þú ferð í frí og getur ekki tekið hann með? Hefur þú nóg tíma til þess að sinna hundinum? Eru til peningar til þess að kaupa allt sem til þarf ásamt óvæntum útgjöldum? Treystir þú þér til þess að kynna þér uppeldi og umhirðu hunda þannig að ykkur farnist vel í sambúðinni? Ert þú tilbúinn að leggja á þig auka þrif vegna hundahaldsins? Ertu tilbúinn að sættast við það að hundur gæti tekið upp á því að eyðileggja ýmsa hluti á heimilinu? Eru allir í fjölskyldunni tilbúnir að fá hund? Hvað ef þú eignast börn, er hundurinn ennþá velkominn á heimilinu?

 

Ef þú ert ennþá til í slaginn eftir þennan lestur, flýttu þér hægt og taktu þér góðann tíma til þess að kynna þér málin frá byrjun og velja rétta hundinn, það marg borgar sig. Það getur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi að taka hund inn á heimilið, enda eru þeir ekki kallaðir besti vinur mannsins að ástæðulausu.