Pistlar

Hundar og áramótin

Hræðsla við flugelda er nokkuð algeng meðal hunda og annarra dýra. Þetta getur skyggt á hátíðahöld gæludýraeigenda, enda geta hljóðin, ljósin og lyktin frá flugeldunum orsakað mikinn kvíða og hræðslu hjá dýrunum okkar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það má gera ýmislegt til að hjálpa hundunum okkar í gegnum þetta tímabil.
Hundar sem hafa fengið góða umhverfisþjálfun frá byrjun og eru vanir allskonar hljóðum í umhverfinu eru síður líklegir til að verða hræddir í kringum áramótin en þeir sem ekki eru vanir.

Það sem ræktandinn gerir skiptir máli Félagsmótunarskeið hvolpsins er á aldursbilinu 3-12 vikna. Á þessu tímabili þarf hundurinn að upplifa allt sem á að teljast eðlilegt í lífinu. Ræktandi ber mikla ábyrgð á að hvolpurinn mótist vel og því þarf hann markvisst að venja hann við ýmisleg áreiti í hverri viku, frá 3-4 vikna aldri, þar til nýr eigandi tekur við hvolpinum. Það sem þarf að venja hundinn við er mismunandi hljóð, lykt, fólk, hreyfingar, dýr, börn, umhverfi (bæði inni og úti) og mismunandi undirlög. Mælt er með því að ræktandi spili flugeldahljóð fyrir hvolpa öðru hvoru á félagsmótunarskeiðinu. Ef hvolpurinn fær ekki nægilega örvun á félagsmótunarskeiðinu eru miklar líkur á að áramótin sem og annað áreiti verði erfitt í framtíðinni. Hvolpar sem eru aldir upp í fjárhúsum eða eru frá svokallaðri hvolpaframleiðslu (e. puppymill) geta átt erfiðara með að aðlagast lífinu. Hvolpaframleiðsla einkennist af mörgum hvolpum sem eru til sölu á hverjum tíma en þeir eru vistaðir í stíum/búrum) og fá mjög litla örvun. Þeir geta verið hræddari við hljóð, ókunnuga eða aðra hunda og átt erfiðara með að vera einir heima. Hvolpar sem búa inni á heimili mótast á náttúrulegan hátt með því að heyra umgang í fólki, í sjónvarpinu/útvarpinu og með því að hitta fólk og börn sem fá að klappa og leika við hvolpana. Það skiptir því miklu máli að hvolpakaupendur spyrji ræktendur spjörunum úr og fái að vita hvað hvolpurinn fékk að upplifa á þessu tímabili.
Stressaður hundur út af flugeldum

Það þarf að venja hunda við flugeldahljóðin

Það tekur tíma að venja hund við flugeldahljóð og því sem þeim fylgir og því er gott að byrja 2-6 mánuðum fyrir áramótin eða eins fljótt og hægt er. Eins og í mörgu öðru gilda þó spakmælin um betra seint en aldrei. Til að undirbúa hundinn skaltu útbúa hljóð og spila þau öðru hvoru. Gott er að venja hundinn við hljóðin smám saman, í litlum skömmtum. Byrjaðu með hljóðin mjög lágt stillt, sem hann þolir vel og auktu við þau smátt og smátt. Það er hægt að kaupa geisladiska með þessum hljóðum en einnig er hægt að finna ókeypis upptökur á netinu til að nota við þessa þjálfun. Á síðunni Flugeldahljóð.com má finna mikið af flugeldahljóðum sem eru tilvalin til að venja hundana við. Annað ráð til að venja hundinn við flugeldahljóð er að sprengja blöðrur eða skella saman spýtum í góðri fjarlægð frá hundinum, öðru hvoru. Ef hundurinn bregst við er mikilvægt að hunsa hann alveg. Ef hann verður hræddur er hljóðið of nálægt eða of hátt. Þá skaltu færa þig fjær hundinum og/eða nota lágværari hljóð til að byrja með. Svo getur þú unnið þig smám saman nær og upp í styrkleika.

Tengdu hljóð og hvelli við eitthvað skemmtilegt Á meðan flugeldahljóðin eru spiluð skaltu gera eitthvað skemmtilegt með hundinum eða gefa honum eitthvað sem honum finnst gott. Á þann hátt tengjum við hljóðin við eitthvað sem er ánægjulegt. Hér koma nokkrar hugmyndir: Sprengdu blöðrur/skelltu saman spýtum í næsta herbergi og eftir hvern hvell fær hundurinn nammi eða leik. Settu nokkra gaffla í stóran pott og nammi ofan í hann. Leyfðu hundinum að ná í nammið á meðan er hann að venjast hljóðunum. Ef hann þorir það ekki út af hljóðunum getur þú prófað fyrst með einum gaffli á disk. Þú getur notast við hvað sem þér dettur í hug, svo lengi sem það koma einhver hljóð úr því. Skjóttu úr byssu úr um 1-2km fjarlægð (fer eftir því á hvernig stað þið eruð og hversu vel hljóðið berst. Það er gott að reikna með að hljóðið dempist um 60-90% til að byrja með. Hundurinn á ekki að verða hræddur, heldur bara rétt heyra það og þá byrjar leikur, nammigjöf eða það sem þú velur sem verðlaun. Fyrir boltaáhugahunda má gera skemmtilegan leik með því að hann fær að elta/finna boltann um leið og hljóðið hefst. Með tímanum má svo vera nær og nær hljóðinu. Það má einnig athuga hvort þið finnið skemmtilegt app með svona hljóðum sem hægt er að nota til að tengja við nammið eða leik.

Gerðu æfingar í göngutúrnum Íslendingar eru sprengjuóðir. Það er mjög óhentugt fyrir þjálfun hundsins, þegar flugeldum er skotið upp í tíma og ótíma, fyrir og kringum áramót. Oft er flugeldum skotið upp þegar hundar eru í göngutúr. Það veldur oft hræðslu hjá hundum sem getur þróast yfir í erfiða flugeldahræðslu. Vertu alltaf með nammi eða reipitogsdót við höndina. Þegar þið heyrið flugeldahljóð, jafnvel þó hundinum sé alveg sama, þá fær hann verðlaunin og jafnvel mikið af þeim. Ef hann fær nammi eða leik í hvert skipti sem hann heyrir hvellina, byrjar hann að tengja þessi hljóð við eitthvað skemmtilegt sem minnkar líkurnar á hræðslu. Ef þú ert í hverfi þar sem mikið er skotið upp, getur verið gott að sleppa göngutúrum á kvöldin og keyra frekar á rólegri stað til að viðra hundinn. Það má líka fara út í stærri göngutúr yfir daginn og vera minna úti á kvöldin. Vertu þá frekar inni og leyfðu hundinum að dunda sér við heilaverkefni eða þefleiki.

Ef þú ert með hund sem nú þegar hefur sýnt hræðslu við ýmislegt, er lítill í sér og þarf oft tíma til að venjast nýju áreiti, eru góðar líkur á að það verði eins með flugeldana. Þá getur verið ráð að hreinlega sleppa innanbæjargöngutúrum eftir myrkur og keyra út fyrir bæinn til að labba. Það má einnig athuga með pössun í sveit þar sem er ekki skotið upp flugeldum.

Undirbúningur fyrir gamlárskvöld

Farið út í dagsbirtu. Farið í mjög langan göngutúr; 2-4 klst. þar sem hundurinn fær að hlaupa um, þefa og þar sem hann fær mikla andlega örvun. Það er hægt að henda nammi í grasið og láta hann leita í að minnsta kosti korter í einu. Önnur góð hugmynd er að skipuleggja hitting með uppáhalds leikfélögunum svo hundurinn fái virkilega mikla útrás og gleði. Gerið hvað sem ykkur dettur í hug sem þreytir hundinn andlega og líkamlega. Þá þurfið þið ekki að fara út um kvöldið í göngutúr og hundurinn er rólegri inni þar sem hann er vel þreyttur.

Gamlárskvöld og þrettándinn

Reynið að halda hundinum frá mestu látunum. Ekki taka hann með á brennur eða út að skjóta flugeldum. Það er ekki góð umhverfisþjálfun. Hundurinn gæti fengið bakslag og orðið enn hræddari. Sumir hundar sýna ekki hræðsluna út á við, heldur líta þeir út fyrir að vera rólegir og að allt sé í góðu hjá þeim. Síðan kemur í ljós um næstu áramót að hundurinn sýnir kvíðamerki við flugelda sem fer versnandi með hverjum áramótum.

Forðist að láta hundinn vera einan heima á gamlárskvöld. Hundar eru öruggari nálægt fólkinu sínu og við viljum ekki að hann sé einn heima ef hann skyldi bregðast illa við öllum látunum. Búum til notalegar aðstæður fyrir hundinn Það er gott að útbúa rólegt afdrep fyrir hundinn. Hafið alla glugga lokaða þar sem lyktin af flugeldunum hræðir suma hunda. Dragið fyrir gluggana og hafið ljósin kveikt svo ljós frá flugeldunum verði ekki eins áberandi. Hafið hátt stillta tónlist til að dempa lætin fyrir utan. Einnig er hægt að nota róandi tónlist fyrir hunda. Á Youtube er hægt að finna ,,calming music for dogs“. Gefið hundinum verkefni að dunda við svo athygli hans beinist annað en að látunum. Bein, leikir, æfingar, fyllt kong og fleira. .

Gefið hundinum vel að borða

Saddur hundur er rólegri hundur. Það er flott að gefa auka nammi í leik og þjálfun svo hann fái andlega örvun og sé upptekinn í leiðinni.

Ekki ýta undir hræðsluna

Við þurfum að gæta þess vel hvernig við högum okkur í aðstæðum þar sem hundarnir okkar gætu orðið hræddir. Hundar eru mjög næmir á líðan okkar og það er auðvelt að ýta undir hræðslu hjá þeim. Ef við erum spennt og hrædd getur það yfirfærst á hundinn. Ef þú sérð að hundinum þínum bregður við lætin skaltu ekki tala til hans í vorkunnartón heldur láta eins og ekkert sé.

Ef hundurinn flýr, felur sig eða leitar til þín

Ef hundurinn þinn er þegar orðinn hræddur og leitar stuðnings hjá þér máttu gjarnan strjúka honum rólega en berðu þig alltaf vel. Það er sniðugt að nudda hundinn ef hann vill það því það hjálpar til við að losa um spennu. Margir hundar reyna að flýja eða fela sig þegar hvellirnir byrja og ef hundurinn felur sig skaltu leyfa honum það en reyndu að koma þér fyrir nálægt honum. Sumir hundar fara undir rúm, upp í baðkar eða undir sófa. Það er í góðu lagi.

Sumir hundar vilja fela sig þegar þeir eru hræddir

Ekki hafa hundinn lausan úti yfir þetta tímabil

Passið vel að allar útgönguleiðir séu lokaðar, því sumir hundar geta átt það til að stinga af í þessum aðstæðum. Viðrið hundinn í taumi og munið að það er gott að nýta tímann á meðan bjart er úti.

Að gera þarfir sínar

Það getur verið gott að fórna örfáum mínútum af Skaupinu fyrir síðustu pissuferð kvöldsins, þar sem yfirleitt er lítið skotið upp á meðan á því stendur. Hafið svo í huga að skamma ekki hund fyrir hegðun sem hann gæti sýnt vegna hræðslu, það eykur bara á streitu. Ef hann harðneitar að fara út þá þarf hann ekki að fara út. Annað hvort heldur hann bara í sér eða pissar inni sem má þá ekki skamma fyrir. Þeir hundar sem eru hræddir við lyktina vilja oft ekki vera úti yfir daginn, þar sem lyktin er ennþá til staðar. Í verstu tilfellum getur hundurinn ekki pissað úti þessa daga og þá þarf að keyra með hann út fyrir bæinn og viðra hann þar.

Fleiri hundar saman

Ef þú ert með hvolp/unghund og ert með hræddan fullorðinn hund fyrir gæti sá eldri smitað þann yngri af hræðslunni svo forðast ætti að hafa þá saman ef hægt er. Hundur sem er öruggur á gamlárskvöld getur að sama skapi veitt smeykum hundi stuðning.

Lyf og önnur hjálpartæki

Í mjög slæmum tilfellum þar sem um ofsahræðslu er að ræða er hægt að ráðfæra sig við dýralækni um lyfjagjöf á gamlárskvöld. Mikilvægt er að gera það tímanlega til að finna réttu lausnina. Í dag eru góð lyf í boði, fyrir hrædda hunda, sem hafa ekki sljóvgandi áhrif. Lyfin eru því einungis kvíðastillandi og þau hjálpa hundunum að komast yfir það versta. Fyrir þá sem vilja ekki notast við lyfseðilskyld lyf eru aðrar lausnir í boði, til dæmis:

Valerian er lyktarolía sem fæst ekki auðveldlega eitt og sér en finnst í nokkrum vörum sem eru seld sem róandi fyrir hunda.
Einnig má prófa lavender og aðrar olíur sem hafa róandi áhrif á fólk en þær geta einnig virkað á hunda. Hægt er að nudda nokkrum dropum af olíunni á feld hundsins eða hreinlega láta hundinn þefa af olíunni. Þetta þarf að endurtaka öðru hvoru um kvöldið á meðan mestu lætin ganga yfir.

Royal Canin Calm þurrfóður fæst hjá dýralæknum. Gott er að byrja á þessu fóðri að minnsta kosti tveimur vikum fyrir áramót því það þarf að venja hunda smám saman við nýtt fóður.

Athugið að það getur stundum verið erfitt að finna þessar vörur og þær jafnvel verið uppseldar þar sem margir vilja kaupa þær fyrir áramótin. Því er ráð að vera snemma á ferðinni.

Fæst hjá flestum dýralæknum. Set slóð á vefverslun dspg.is

Við mælum sérstaklega með Adaptil fyrir alla hunda og sérstaklega þá sem eru að upplifa sín fyrstu áramót. Adaptil inniheldur ferómón sem hafa róandi áhrif á hunda. Það hefur verið vísindalega rannsakað og þar kom fram að virknin er raunveruleg. Feliway er sama vara, hönnuð fyrir ketti.

Fyrir besta árangur þarf að virkja Adaptil 1-2 vikum fyrir áramót, algengast er að nota kló sem stungið er í samband við rafmagn. Þannig berst þetta yfir allt rýmið og hjálpar dýrunum að slaka á.

Gæludyr.is

Róandi spray sem inniheldur Valíeran (Garðabrúða) sem hefur róandi áhrif. Hægt að úða á bælið eða þín föt eða á klút sem hundurinn er með um hálsinn.

keiko.is
Gæludyr.is
Lífland.is
Dspg.is
Seðjunaráhrifin af Happy Hoodie geta haft áhrif á hræðsluna sem er samfara þessum mögulegu kvíðavænu aðstæðum.
Thundershirt

Mjúkt vesti sem þrýstir vel utan um líkamann og veitir öryggi. Það fæst hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti. Það hefur notið vinsælda erlendis til að draga úr streitu hunda.

Ttouch

Body wrap sem virkar róandi á hundana í erfiðum aðstæðum. Hægt er að fara á sérstakt ttouch námskeið

Kong
Lick mat

Svo er lang best að eiga nóg fyir hundinn að dunda sér mér. Kong eða og lick mat fyllt með lifrapylsu klikker seint. Sniðugt að frysta til að það endist lengur fyrir þá sem eru snöggir.

Flugeldar eru skaðlegir hundum

Í lokin er gott að benda á að flugeldar og leifar af flugeldum geta verið skaðlegar hundum. Það er mikilvægt að passa upp á að hundar séu ekki að þefa af, naga eða borða leifar af flugeldum. Fylgist vel með því hvað hundarnir eru að skoða í göngutúrum og farið vel yfir garðana ykkar, að þar sé ekki að finna leifar af flugeldum.

By |December 25th, 2015|Pistlar|Comments Off on Hundar og áramótin

Leiði

Leiði, notum göngutúrana og matinn

Við vitum öll að hundar þurfa að fá göngutúr daglega, en geta göngutúrar verið í mismunandi gæðum?

Ímyndaum okkur lífið okkar, hvað ef allir dagar væru eins? Við vöknuðum, færum í sömu vinnuna, gerðum sömu hlutina, ættum sömu samræður við sama fólk og kæmum svo heim og elduðum sömu uppskriftina sem við […]

By |November 15th, 2013|Pistlar|Comments Off on Leiði

Svo, þú ert að spá í að fá þér hund…

Að taka að sér hund er stór ábyrgð og 10-15 ára skuldbinding. Það er mikið sem þarf að hugsa fyrir og jafnvel fórna fyrir hundahaldið.

Fyrst ber að hafa í huga að hundur getur ekki verið of mikið einn, sérstaklega ekki hvolpur, en samkvæmt sænskum dýraverndunarlögum mega fullorðnir hundar ekki vera lengur einir en 6 tíma […]

By |September 15th, 2013|Pistlar|Comments Off on Svo, þú ert að spá í að fá þér hund…

Styrking við jákvæða hegðun

Ísland er á tímamótum hvað varðar hundaþjálfun. Eins og allt annað þá þróast einnig hundaþjálfun í takt við tímann. Til eru mismunandi aðferðir til að við þjálfun hunda. Til að útskýra aðeins fyrst þá vil ég skrifa um sögu hundsins.
Hundar eru náskyldir úlfum. Sagt er að hundurinn hafi verið til í lok tíma ísaldarinnar eða […]

By |April 20th, 2012|Pistlar|Comments Off on Styrking við jákvæða hegðun