Leiði, notum göngutúrana og matinn
Við vitum öll að hundar þurfa að fá göngutúr daglega, en geta göngutúrar verið í mismunandi gæðum?
Ímyndaum okkur lífið okkar, hvað ef allir dagar væru eins? Við vöknuðum, færum í sömu vinnuna, gerðum sömu hlutina, ættum sömu samræður við sama fólk og kæmum svo heim og elduðum sömu uppskriftina sem við borðuðum af sama disknum og horfðum svo á sömu bíómyndina í sjónvarpinu. Svona myndi það ganga vikum, mánuðum ef ekki árum saman, við yrðum frekar leið á því, ekki satt?
Ímyndum okkur núna líf hundsins okkar, hann fer út að pissa á sama stað og alltaf, bíður svo eftir okkur á meðan við erum í vinnunni. Svo fer hann í göngutúr, sama hringinn, við jafnvel drögum hann áfram til þess að drífa þá vegalengd af sem við ætlum okkur svo við getum haldið áfram með lífið okkar. Þegar heim er komið borðar hundurinn sama mat og áður í sömu skálinni og við tekur meiri leiði þegar við erum í tölvunni eða að horfa á sjónvarp.
Hvað ef við getum með auðveldum hætti bætt lífsgæði hundsins okkar án mikillar fyrirhafnar fyrir okkur?
Göngutúrarnir ættu ekki að snúast um að komast venjulega hringinn hratt og örugglega. Við ættum að nota göngutúrana í að leyfa hundinum okkar að skoða sig um, fara á mismunandi staði þegar við getum og skoða mismunandi hluti. Við getum styrkt sjálfstraust hundanna okkar með því að láta þá hoppa uppá steina, ganga á plönkum, hoppa yfir hindranir sem verða á vegi okkar. Leyfum hundinum okkar að þefa (innan skynsamlegra marka auðvitað 🙂 ), þef er þeirra fréttamiðill, þeir fá miklu meira útúr því að ”lesa moggann” heldur en að hlaupa, svo sem auka bónus hefur þef róandi áhrif á hundana okkar.
Ef við horfum á villt dýr þá sjáum við að mikið af þeirra tíma fer í fæðuöflun, hundarnir okkar fá venjulega matinn sinn í skál og búnir að gúffa honum í sig á nokkrum mínútum. Það sem við getum gert er að láta hundinn vinna fyrir hluta af matnum sínum. Við getum dreyft mat/nammi annað hvort innandyra eða úti, hengt nammi á tré, búið til lítið spor fyrir hundinn og svo framvegis. Við getum einnig þjálfað hundinn okkar í ýmisu með mat, svo getum við sett hluta matarins í kong eða pakkað honum inn þannig að hundurinn þurfi að hafa smá fyrir því að ná honum. Munum bara að minnka matinn sem endar í skálinni eftir því sem við erum duglegri að gefa hundinum mat með öðrum leiðum.
Mörg hegðunar vandamál verða til vegna leiða, en með því að vera svolítið virk og hugmyndarík getum við gert líf hundsins okkar svo mikið betra og innihaldsríkara. Á sama tíma verður samband okkar við hundinn svo miklu betra og við minnkum líkur á vandamálum umtalsvert.
Recent Comments